„Það var ótrúleg upplifun, bæði ofsalega ömurlegt og stórkostlegt“
Júlía Margrét Einarsdóttir
2025-04-04 07:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Hlín Helga Guðlaugsdóttir er listrænn stjórnandi DesignTalks, eins af lykilviðburðum Hönnunarmars sem nú stendur yfir undir þemanu Uppsretta. Hátíðinni fylgir, líkt og síðustu ár, kynngimagnaður kraftur upphafsins, gleði og glens um alla borg. Hlín Helga var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hún rifjaði meðal annars upp þegar hún bjó með fjölskyldu sinni í bát í Stokkhólmi á meðan hún kenndi upplifunarhönnun. „Það var ótrúleg upplifun, bæði ofsalega ömurlegt og stórkostlegt,“ segir hún um þá reynslu. Og það eru öfgar sem hún kann að meta. „Þetta var akkúrat eins og ég vil hafa það, ekkert miðjumoð.“
Fóru aldrei úr ullarfötunum og voru undir mörgum sængum
Þau bjuggu í bátnum í miðborg Stokkhólms við dýrustu götu borgarinnar. „Ambassadorarnir bjuggu allir hinum megin við götuna, en við kúrðum öll í hippabátnum,“ rifjar hún upp. „Þetta var svolítið eins og að vera í útilegu eða pikknikk en svo var tuttugu stiga frost og við að hita upp með kamínu. Allir sofandi í sama rúmi, við fórum aldrei úr ullarfötunum og vorum undir mörgum sængum.“
Tilefnið var að Hlín bauðst staða við listaháskólann í Stokkhólmi skömmu eftir að hún útskrifaðist. Hún segir að það hafi ekkert annað verið í boði en að þiggja það, en það var ekki auðvelt að finna húsnæði í Stokkhólmi. „Svo var þarna Íslendingur sem við þekktum sem hafði verið að gera upp þennan bát, svo við vissum af þessu þannig. Þá höfðum við í tvö ár búið á um sex, sjö stöðum í ferðatöskum.“
Hún minnist þess eftir fyrsta veturinn, sem var ansi harður, þegar Bjartur sonur hennar sem var fjögurra ára sagði loks daginn sem fór að vora: „Mamma, sjórinn er eins og flauel í dag.“
Eiginmaður Hlínar, Björn Ingi Hilmarsson leikari, fékk nokkur hlutverk meðan á dvölinni í Stokkhólmi stóð og fjölskyldulífið var fjörlegt. „Hann var mikið ekki heima en þetta var skemmtilegur tími.“
Sýnin breyttist eftir langa dvöl á kvennadeild
Á þessum tíma var Hlín tiltölulega nýútskrifuð úr vöruhönnun og farin að velta fyrir sér hönnun í tengslum við upplifun. Það spilaði inn í að hjónin eignuðust son sinn sumarið fyrir síðasta ár hennar í námi. Hann fæddist mikið fyrir tímann og þá breyttist sýn hennar á ýmislegt.
Upplifunarhönnun snýst ekki síst um heildarmyndina, að sögn Hlínat, hvað hefur áhrif á manneskju og hvernig henni líður þegar hún gengur inn á hótel, inn í banka eða á spítala til dæmis. „Þessi samþætting, að horfa á heildina, nálgast það heildrænt og horfa á það frá augum þess sem þarf að nálgast þjónustuna eða upplifunina, þarf að á því að halda eins og á spítölum.“
Upplifunarhönnun á Kvennadeildinni var fyrsta stóra verkefnið hennar, sem var viðeigandi þar sem aðeins um tveimur árum áður þurfti hún sjálf að dvelja lengi þar.
Á slíkum stað snúist hönnunin ekki um að veita þau hughrif að notandinn hafi aldrei komið inn á eins fallega stofnun heldur að umhverfið taki vel á móti fólki og að því líði vel.
Óður til upprunans og upphafsins
Hönnunarmars var fyrst haldinn fyrir sautján árum. Þá var Hlín Helga framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs með skrifstofu við Austurvöll og minnist þess að hafa verið með búsáhaldabyltinguna í eyrunum og hlustað á taktfastan slátt og kröfur um aðgerðir. Á þessum tíma, í hruninu, tæmdust fjölmörg rými í miðbænum og Hlín fékk þá hugmynd að fylla þau af ýmiss konar hönnun. Það var gert og svo var marserað með lúðrasveit auk þess sem borgarstjóri ávarpaði samkomuna. Þaðan fær hönnunarmars nafn sitt, af því að marsera auk þess sem sá fyrsti var haldinn í mars.
Síðan þá hefur staða hönnunar breyst, segir Hlín, og líka skilningur almennings á hönnun. En það er mikið um dýrðir á þessari hátíð sem endranær og í ár er yfirskriftin Uppsprettan. „Mér fannst það bæði óður til upphafsins og upprunans. Uppruna hugmynda.“
Hlín hvetur alla eindregið til að mæta og skoða það nýjasta sem er að gerast í hönnun á Íslandi. „Allir sem hafa einhvern smá áhuga ættu að reima á sig strigaskóna og hoppa um bæinn 2.–6. apríl. Það er yndisleg gjöf að geta sest niður, opnað á innblástur úr óvæntri átt. Þetta er algör veisla þó ég segi sjálf frá.“
Nafnalisti
- Bjarturbókaútgáfa
- Björn Ingi Hilmarssonleikstjóri
- DesignTalksalþjóðleg ráðstefna
- Hlín Helga Guðlaugsdóttirstjórnandi DesignTalks
- Sigurlaug Margrét Jónasdóttirein ástsælasta útvarpskona landsins
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 757 eindir í 41 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 34 málsgreinar eða 82,9%.
- Margræðnistuðull var 1,65.