RÚV leiðréttir umfjöllun um mál Ásthildar Lóu
Rafn Ágúst Ragnarsson
2025-03-28 20:21
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur gefið út leiðréttingu vegna umfjöllunar Spegilsins um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur.
„Í inngangi að umfjöllun Spegilsins þar sem rætt var við álitsgjafa um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur fimmtudaginn 20. mars klukkan 18:10 kom fram sú staðhæfing að Ásthildur Lóa hefði átt barn með fimmtán ára pilti þá 22 ára. Það er rangt,“ kemur fram í leiðréttingunni.
„Hið rétta er að pilturinn var sextán ára og Ásthildur Lóa tuttugu og þriggja ára þegar þau eignuðust barnið eins og kom fram í fréttum RÚV af málinu. Fréttastofa RÚV harmar þessi mistök og biður alla hlutaðeigandi velvirðingar,“ segir þá.
Í inngangi Spegilsins kom fram að Ásthildur Lóa Þórsdóttir barnamálaráðherra hafi eignast „þá 22 ára gömul, barn með 15 ára pilti sem hún kynntist í unglingastarfi sem hún leiddi.“ Þá voru stjórnmálafræðingarnir Eva Heiða Önnudóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson kynnt sem gáfu álit sín á málinu í þættinum.
Margir gagnrýndu fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir fréttaflutning sinn af máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur en hún greindi fyrst frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri stakk niður penna við tilefnið og tók upp hanskann fyrir fréttastofuna og Sunnu Kareni Sigurþórsdóttur, sem skrifuð er fyrir fréttinni og varð fyrir rætnu og persónulegu áreiti í kjölfarið, að sögn Heiðars.
Hann sagði fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa verið sakaða um ýmsar rangfærslur í fréttinni en að engin þeirra hafi staðist skoðun.
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Eiríkur Bergmann Einarssonprófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst
- Eva Heiða Önnudóttirprófessor í stjórnmálafræði
- Heiðar Örn Sigurfinnssonfréttastjóri
- Sunna Kareni Sigurþórsdóttir
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 224 eindir í 10 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 8 málsgreinar eða 80,0%.
- Margræðnistuðull var 1,60.