Snögg stigmögnun í tollastríði Bandaríkjanna og ESB
Björn Malmquist
2025-03-14 11:14
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Tollastríð Bandaríkjastjórnar við Evrópusambandið er skollið á fyrir alvöru og það gæti verið að færast í aukana. Aðeins um sólarhringur leið frá því fyrstu aðgerðir Bandaríkjamanna tóku gildi, og fyrstu mótaðgerðir ESB voru kynntar, þar til Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði enn hærri tollum.
Nýjasta útspilið: Hótun Donalds Trump um að setja 200 prósenta toll á öll vín, kampavín og aðrar áfengisvörur frá Evrópu. Þetta tilkynnti Bandaríkjaforseti á Truth Social samfélagsmiðlinum í gær; það væri ósvífið að setja fimmtíu prósent toll á viskí frá Bandaríkjunum sagði Trump, og bætti því við að Evrópusambandið væri versta tolla-stjórnin í heimi.
Skjáskot af Truth Social/Truth Social
Fyrsta skotinu í þessu tollastríði viðskiptablokkanna tveggja var hleypt af á miðnætti (á vesturströnd Bandaríkjanna) í fyrrinótt, þegar 25 prósent tollur á stál- og álvörur til Bandaríkjanna tók gildi. ESB (eða aðildarríki þess samanlagt) er þriðji stærsti innflytjandinn á stálvörum til Bandaríkjanna, en ákvörðunin kemur þó verst við Kandada og Mexíkó, sem eru í fyrsta og öðru sæti á þessum lista.
Ákvörðun Bandaríkjastjórnar hefur þannig áhrif á vörur fyrir um 26 milljarða evra sem fluttar eru yfir hafið-sem er þó aðeins um fimm prósent af heildarverðmæti útflutnings ESB ríkjanna til Bandaríkjanna.
Snögg viðbrögð í Berlaymont
Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að tollahækkanir Bandaríkjastjórnar tóku gildi-snemma í gærmorgun-var Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mætt á blaðamannafund í Berlaymont byggingunni í Brussel, höfuðstöðvum framkvæmdastjórnarinnar, og kynnti mótaðgerðir, sem greinilega höfðu verið lengi í undirbúningi.
„Þessar mótaðgerðir sem við grípum til í dag eru snarpar, en sambærilegar,“ sagði Von der Leyen. „Þar sem Bandaríkjastjórn er að hækka tolla sem nemur 28 milljörðum evra, þá svörum við með tollum upp á 26 milljarða.“
Mótaðgerðir Evrópusambandsins eru í meginatriðum tvenns konar: Um næstu mánaðarmót taka gildi tollahækkanir upp á um 4,5 milljarða evra, sem fyrst voru settar 2018, sem mótaðgerðir við hækkunum þáverandi stjórnvalda í Bandaríkjunum (með Trump í Hvíta húsinu). Þær ná yfir vörur eins og viskí (sem varð til að vekja reiði Bandaríkjaforseta í gær), gallabuxur og Harley Davidson mótorhjól. Þessar aðgerðir voru á sínum tíma settar til að þrýsta á þingmenn Repúblikana sem koma frá svæðum þar sem þessar vörur eru framleiddar.
Þrettánda apríl taka svo gildi hækkanir upp á alls um 18 milljarða evra, á fjöldan allan af öðrum vöruflokkum, þar á meðal snyrtivörur, timbur, soyabaunir og kjúklinga — fari svo að ekki verði hægt að ná samkomulagi — eða allavega vopnahléi í þessu tollastríði sem hefur átt sér talsverðan aðdraganda.
Líkar ekki við Evrópusambandið
Trump hefur ekki farið dult með andúð sína á Evrópusambandinu, og þeim halla sem er á viðskiptum milli Bandaríkjanna og ESB. Hins vegar skiptir máli hvort talað er um vöruviðskipti, þar sem hallinn er 157 milljarðar evra Evrópuríkjum í hag, eða viðskipti með þjónustu þar sem hallinn er 109 milljarðar evra, Bandaríkjunum í hag.
EPA
„Evrópusambandið fer illa með okkur og hefur gert um árabil,“ sagði Trump í Hvíta húsinu í fyrradag, þegar írski forsætisráðherrann, Micheál Martin var í heimsókn í Hvíta húsinu. „Ég tók slag við ESB á fyrra kjörtímabili mínu og það tókst vel, en Evrópusambandið hefur verið hart í horn að taka,“ sagði Trump og bætti því við að hann myndi svara öllum tollahækkunum með samskonar hætti-þótt boðaðar hækkanir Evrópusambandsins séu í raun svar við upphaflegum hækkunum Bandaríkjastjórnar.
EPA
Hækkun Evrópusambandsins á tollum á viskí virðist síðan hafa farið sérstaklega í taugarnar á Trump sem hótaði 200 prósent tollum á vín og kampavín frá Evrópu. Nú sjá evrópskir áfengisframleiðendur sæng sína útreidda og báðust í gær undan því að vörur þeirra væru notaðar sem skiptimynt — eða skotfæri — í þessu tollastríði.
Ísland og Noregur sleppa — í bili
Utanríkisþjónustur Íslands og Noregs hafa að undanförnu unnið af alefli af því að tryggja sér skjól gegn mögulegum verndaraðgerðum Evrópusambandsins, og beitt þeim rökum að þótt ríkin tvö séu ekki í tollabandalagi ESB, þá séu þau náin samstarfsríki og hluti af innri markaðum.
Að því best verður séð, þá sleppa Ísland og Noregur frekar vel frá þessu tollastríði, enn sem komið er allavega. Undanþága sem ríkin tvö fengu frá verndartollum ESB árið 2018 er ennþá í gildi og aðeins lítið magn af ál- og stálvörum sem framleiddar eru í Noregi er selt til Bandaríkjanna. Allt ál sem framleitt er á Íslandi, er selt til aðildarríkja Evrópusambandsins.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Harley Davidsonmótorhjólaframleiðandi
- KandadaCBC
- Micheál Martinforsætisráðherra Írlands
- Truth Socialsamfélagsmiðill
- Ursula von der Leyenforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 748 eindir í 30 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 21 málsgrein eða 70,0%.
- Margræðnistuðull var 1,62.