Fleiri en 1.600 látnir eftir jarðskjálftann í Mjanmar
Grétar Þór Sigurðsson
2025-03-29 15:20
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Rúmlega 1.600 eru látnir eftir jarðskjálfta sem reið yfir Mjanmar og Taíland í gærmorgun. Á fjórða þúsund eru slasaðir.
Stjórnvöld í Mjanmar hafa greint frá því að 1.644 hafi fundist látnir þar í landi. Fjöldi slasaðra er 3.408 og 139 er saknað, að því er segir í nýjustu tilkynningu stjórnvalda.
Skjálftinn í gær var 7,7 að stærð. Áhrifa hans gætti í nágrannalöndum Mjanmars. Yfirvöld í Bangkok í Taílandi segja að tíu hafa fundist látnir eftir skjálftann. Þar er 78 enn saknað.
Fjölmargir eftirskjálftar hafa orðið sem gera viðbragðsaðilum erfitt fyrir. Björgunarstarf heldur áfram og AFP greinir frá því að konu hafi verið bjargað úr rústum íbúðarhúss í Mandalay, næst fjölmennstu borg Mjanmars. Hún hafði verið föst í rústunum í 30 klukkustundir. Þar vinnur björgunarfólk að því að bjarga upp undir 90 manns sem eru fastir í rústunum.
Maður sem breska ríkisútvarpið ræddi við í gær segir að fólk hafi þurft að grafa með höndunum í þorpi í grennd Mandalay. Hann sagði erfitt að komast að fólki í húsarústum, fólki sem hann heyrði öskra á hjálp innan úr húsarústum.
Herforingastjórnin í Mjanmar hefur óskað eftir alþjóðlegri aðstoð, sem er fátítt að hún geri. Önnur ríki hafa brugðist við kallinu og sent mikla aðstoð, bæði mannskap og neyðarbirgðir.
Átök í landinu halda þó áfram, þrátt fyrir hörmungarnar sem fylgt hafa jarðhræringunum. Her landsins hefur gert loftárásir í héruðum þar sem neyðarástandi hefur verið lýst yfir.
Nafnalisti
- Mandalayborg
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 253 eindir í 18 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 18 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,60.