Ásthildur Lóa fékk algjöra sérmeðferð hjá bankanum
Ritstjórn mbl.is
2025-03-24 14:31
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Lögmennirnir Árni Helgason og Sigurður G. Guðjónsson eru sammála um að sú meðferð sem Ásthildur Lóa Þórsdóttir og eiginmaður hennar fengu hjá viðskiptabanka sínum í kjölfar hrunsins sé einsdæmi.
Upplýsingar dúkkuðu upp
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála. Þar eru til umræðu upplýsingar sem dúkkuðu upp í dómsmáli sem Ásthildur Lóa og maður hennar höfðuðu gegn sýslumanni vegna meints tjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna framgöngu embættisins í tengslum við nauðungarsölu á húseign þeirra.
Keyptu húsið á 12 ára gömlu verði
Húseignin er í dag í eigu þeirra eftir að þau keyptu hana aftur af Arion banka, stofnuninni sem leyst hafði fasteignina til sín. Í fyrrnefndu dómsmáli var upplýst að þau hefðu árið 2019 keypt húseignina af bankanum á 55 milljónir króna, eða sömu fjárhæð og þau höfðu greitt fyrir hana 12 árum fyrr, eða árið 2007.
Nefnir Árni að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um fasteignamarkaðinn á árinu 2019 að húsnæðið sem Ásthildur Lóa keypti hafi í raun verið tugum milljóna verðmætara en sem nam kaupveðrinu.
Bankar með ákveðnar verklagsreglur
Árni útskýrir í þættinum hvernig bankar hafi ákveðnar reglur um það hvernig þeir meðhöndla fullnustueignir. Hann segist ekki þekkja eitt einasta dæmi um það að fólk hafi fengið að leysa til sín eignir á eldgömlu verði.
Segir hann raunar að hann hafi aldrei haft hugmyndaflug til þess að þrýsta á fjármálastofnanir um að ganga til viðlíka samninga fyrir hans skjólstæðinga.
Enn fremur nefnir hann að sú meðferð sem Ásthildur Lóa virðist hafa notið af hálfu Arion banka sé í miklu ósamræmi við orðræðu sem hún hefur árum saman haft uppi sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Þá hafi steininn í raun tekið úr þegar hún lýsti fullkomnu frati á íslensku dómskerfi eftir að dómari gerði ekkert úr fullyrðingum hennar í fyrrnefndu máli um að hún hefði verið hlunnfarin vegna framgöngu sýslumanns.
Viðtalið við þá Árna Helgason og Sigurð G. Guðjónsson má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:
Nafnalisti
- Árni Helgasonlögmaður
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Sigurð G. Guðjónsson
- Sigurður G. Guðjónssonlögmaður Áslaugar
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 318 eindir í 15 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 14 málsgreinar eða 93,3%.
- Margræðnistuðull var 1,66.