Sæki samantekt...
Bandaríkjaforseta bíður það verkefni í dag að sannfæra Rússlandsforseta um að fallast á 30 daga vopnahlé í Úkraínu. Áætlað er að þeir ræði saman í síma í dag um vopnahléið sem Úkraínumenn hafa þegar samþykkt.
Eftir að ljóst varð í síðustu viku að Úkraínumenn hefðu samþykkt vopnahlé eftir milligöngu Bandaríkjastjórnar sagðist Pútín Rússlandsforseti samþykkja slíkt líka, en með ákveðnum skilyrðum.
Óljóst er um hversu mikið hefur verið samið á bak við tjöldin en danska ríkisútvarpið, DR, hefur eftir Rasmus Brun Pedersen, dósent í alþjóðastjórnmálum við Árósarháskóla, að úr því að forsetarnir ætli að ræða saman megi gera ráð fyrir að ýmsum hindrunum hafi þegar verið rutt úr vegi.
Búist er við að forsetar Donald Trump og Vladimír Pútín ræði saman í síma í dag á milli klukkan 13:00 og 15:00 að íslenskum tíma.
Bandaríkjaforseti kveðst vita að Úkraínumenn vilji vopnahlé. „Þetta verður mjög þýðingarmikið símtal hjá okkur í dag. Við höfum þegar átt nokkur símtöl og viðræðurnar eru komnar á mjög mikilvægt stig og við viljum leysa málin milli Rússlands og Úkraínu,“ sagði Trump við fjölmiðla í gærkvöld.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu. AP/FR 159526 AP/Jose Luis Magana
Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu sagði í ávarpi á samfélagsmiðlum í gærkvöld að samningar um vopnahlé væru aðkallandi til að bjarga mannslífum og gefa sendifulltrúum ríkjanna rými til að semja um öryggi og frið til framtíðar. Slíkt hafi Rússar ekki enn samþykkt. Zelensky sagði að beita þurfi rússnesk stjórnvöld meiri þrýstingi til að samþykkja vopnahlé svo binda mætti enda á stríðið.
Dmitry Peskov talsmaður Rússlandsforseta sagði við fjölmiðla í morgun að margt væri þegar komið á hreint í viðræðunum en að mörgum spurningum væri þó enn ósvarað, svo sem varðandi bætt samskipti Rússlands við Bandaríkin og samninga við Úkraínu.
Nafnalisti
- Dmitry Peskovtalsmaður stjórnvalda í Kreml
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Jose Luis Magana
- Pútínforseti Rússlands
- Rasmus Brun Pedersen
- Vladimír Pútínforseti
- Volodymyr Zelenskyforseti Úkraínu
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 299 eindir í 14 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 13 málsgreinar eða 92,9%.
- Margræðnistuðull var 1,73.