Sæki samantekt...
Formaður BSRB segir ekkert eðlilegt við háar starfslokagreiðslur sem formaður Sameykis þáði, hátt í sjötíu milljónir króna. Ráðherra vinnumála segir ekki skrýtið að fólki blöskri.
Vísir greindi frá því á dögunum að Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, hafi gert starfslokasamning í fyrra við Þórarin Eyfjörð, fyrrverandi formann stéttarfélagsins, sem tryggði honum tæpar 69 milljónir króna. Þórarinn verður á launum út kjörtímabilið, eða í tvö og hálft ár. Ekki hefur náðst í Þórarin vegna málsins.
Fyrir hálfu ári var ljóst að Þórarinn nyti ekki lengur trausts stjórnar og starfsfólks Sameykis né forystu BSRB, og vék því úr stjórn. Sameyki er aðildarfélag að BSRB, en lýtur eigin stjórn.
„Fullkomlega óeðlileg upphæð“
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir ekkert eðlilegt við svona starfslokagreiðslur. Ekki sé hægt að segja kjörnum fulltrúa upp störfum og því hafi formaðurinn haft góða samningsstöðu.
„Ef maður horfir á þessa tölu, sem er í engum takti við það sem félagsfólk BSRB býr við eða í samhengi, þá er þetta fullkomlega óeðlileg upphæð,“ segir Sonja Ýr.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. RÚV/Ragnar Visage
Spurð hvort hún sjálf myndi þiggja slíka greiðslu segir Sonja Ýr: „Nei, við höfum lagt mjög ríka áherslu á það-og ég held að sem betur fer séu fleiri sammála því heldur en ekki innan verkalýðshreyfingarinnar-að kjör okkar sem þar starfa, hvort sem við erum kjörin eða ráðin til starfa, að þau séu í einhverjum takti við þau réttindi sem okkar félagsfólk og býr við.“
Setja reglur til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig
Stjórn Sameykis fundaði í gær. Þar var ákveðið að settar yrðu starfsreglur til að tryggja að álíka endurtaki sig ekki. Í yfirlýsingu stjórnar segir að starfslokasamkomulagið hafi verið gert að fengnu lögfræðiáliti og með aðkomu sáttamiðlara.
Inga Sæland, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir ekki skrýtið að fólki blöskri. „Mér finnst þetta svakalega háar tölur, svakalega háar upphæðir,“ segir Inga. „Hvort það er siðferðilega rétt eða ekki, ég ætla ekki að meta það, en ég skil vel að fólki hreinlega blöskri svona upphæðir.“
Stjórn Sameykis ætlar einnig að setja þær reglur að fráfarandi stjórnarmenn geti ekki verið á tvöföldum launum, þannig að biðlaun falli niður þegar menn ráðast til starfa annars staðar.
Eins og fjallað hefur verið um þáði Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður VR, tíu milljóna biðlaun þegar hann var kosinn á þing. Skyldi ráðherra blöskra það? „ Mér blöskrar kannski frekar að það skuli ekki vera eins dregið fram að hann lækkaði laun sín um 40 milljónir á móti, vegna þess að hann dró strax niður laun sín um 300 þúsund krónur á mánuði frá fyrsta degi sem formaður VR og þannig var það í átta ár,“ segir Inga. „En ásýndin í alla staði þegar einstaklingar, hvað sem þeir heita, eru að fá til sín svona háar upphæðir, það er í rauninni engin furða þó að það sé litið þannig augum að fólki geti blöskrað.“
Nafnalisti
- Formaður BSRBSonja Ýr Þorbergsdóttir
- Inga Sælandformaður
- Ragnar Visageljósmyndari RÚV
- Ragnar Þór Ingólfssonformaður
- Sonja Ýr Þorbergsdóttirformaður BSRB
- Þórarinn Eyfjörðformaður Sameykis
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 520 eindir í 26 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 20 málsgreinar eða 76,9%.
- Margræðnistuðull var 1,71.