Ekki endilega viss um að afsögn hafi verið nauðsynleg
Tómas Arnar Þorláksson
2025-03-23 12:55
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Tveir ríkisráðsfundir verða haldnir á Bessastöðum í dag þar sem Halla Tómasdóttir forseti mun veita Ásthildi Lóu Þórsdóttur lausn úr embætti barna- og menntamálaráðherra og nýr ráðherra Flokks fólksins verður tilkynntur. Stjórnmálafræðingur dregur í efa að afsögn hafi verið nauðsynleg.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins fullyrti núna fyrir hádegi að Guðmundur Ingi Kristinsson verði næsti mennta- og barnamálaráðherra Flokk fólksins. Guðmundur gat ekki staðfest það í samtali við fréttastofu rétt fyrir hádegi en sagðist vera á leiðinni á fund.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur telur líklegast að Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Flokk fólksins verði næsti ráðherra, einnig komi Kolbrún Baldursdóttir til greina.
„Það skiptir líka máli að reyndir stjórnmálamenn og reyndir þingmenn, setjist í ráðherrastóla. Það sýnir sig ítrekað að reynsla úr þinginu sé mikilvæg.“
Ásthildur Lóa sagði af sér á fimmtudag í ljósi umfjöllunar um að hún hafi eignast barn með sextán ára dreng þegar hún var sjálf 23 ára. Eiríkur segir enga ástæðu fyrir hana að hætta á þingi og segir að samfélagið leggi of mikla kröfu um tandurhreina sögu á ráðamenn.
„Maður hefur auðvitað tekið eftir þessari síauknu kröfu um flekkleysi og að stjórnmálafólk eigi á einhvern hátt að vera dyggðugra en aðrir í þjóðfélaginu. Ég er ekki viss um að það sé heppileg krafa. Þingmenn og ráðherrar eiga miklu heldur að endurspegla samfélagið.“
Lýðræði gangi ekki út á það að ráða dyggðugustu manneskjuna til verksins.
Ósamræmi hefur verið á milli forsætisráðherra og fráfarandi barnamálaráðherra um hvernig upplýsingar um erindi á borði forsætisráðuneytisins rataði til Ásthildar. Eiríkur telur að það verði ekki til trafala fyrir ríkisstjórnina.
„Ég er í sjálfu sér ekkert viss um að svo sé. Það er auðvitað búið að losa spennu úr þessu máli með þessari afsögn. Þó ég sé ekkert endilega viss um að hún hafi verið nauðsynleg. Það er hins vegar ekkert óeðlilegt að þegar fólk er að greina frá málum sem snerta persónulega hagi fólks og eru í grunninn svona persónuleg að þá sé kannski einhver misfella í því. Það telja sig kannski ekki allir hafa umboð til að greina frá öllum þáttum mála sem snerta einkahagi fólks og þá leiðir það til hættu á slíku. Án þess að ég þekki það til neinnar hlítar að þá kunna að vera eðlilega skýringar á slíku.“
Nafnalisti
- Ásthildur Lóa Þórsdóttirformaður Hagsmunasamtaka heimilanna
- Eiríkurvaraformaður Skipstjórafélags Íslands
- Eiríkur Bergmannprófessor í stjórnmálafræði
- Guðmundur Ingi Kristinssonþingmaður Flokks fólksins
- Halla Tómasdóttirfyrrverandi forsetaframbjóðandi
- Kolbrún Baldursdóttirborgarfulltrúi Flokks Fólksins
- Lilja Rafney Magnúsdóttirfyrrverandi þingmaður Vinstri grænna
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 380 eindir í 21 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 18 málsgreinar eða 85,7%.
- Margræðnistuðull var 1,71.