„Þetta er plága um allan heim“
Anna María Björnsdóttir
2025-03-30 20:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
„Þessi kona er í raun hetja í mínum augum. Hún er táknmynd kvenna sem fara út úr ofbeldissambandi, því þetta er ekki auðvelt,“ segir Díana Júlíusdóttir ljósmyndari sem opnaði fyrstu einkasýningu sína á erlendri grundu í mars, í Valencia á Spáni. Viðfangsefnið er heimilisofbeldi og leið konu úr ofbeldissambandi og ber sýningin yfirskriftina Rauðar flækjur.
Guðrún Gunnarsdóttir ræddi við Díönu í Mannlega þættinum á Rás 1.
Aðsend
„Þetta var leiðin mín til að finna hamingjuna og ljósið“
Fyrir fjórtán árum ákvað Díana að láta draum sinn rætast og læra ljósmyndun. Hún skildi við barnsföður sinn og líf hennar breyttist mjög mikið „Ég fór að hugsa hvað er það sem ég vil gera í mínu lífi.“
Hún ákvað að setja sjálfa sig í fyrsta sæti því til þess að börnin hennar gætu verið hamingjusöm þyrfti móðir þeirra að vera það líka. „Þetta var leiðin mín að finna hamingjuna og ljósið. Svo ég fór bæði að ljósmynda og fór líka í Ferðafélagið og fór að ganga mikið fjöll.“
Væri ekki hér í dag ef hún hefði ekki haft trú á sjálfri sér
Díana fékk fyrstu myndavélina sína í jólagjöf frá foreldrum sínum, 12 ára og þá var ekki aftur snúið. Þegar hún var 13 ára flutti hún til Danmerkur þar sem móðir hennar var í námi. Hún tók valáfanga í ljósmyndun í grunnskólanum þar og fékk að kynnast myrkraherberginu, taka myndir um alla Kaupmannahöfn á filmu og framkalla.
„Síðan þá hefur þessi áhugi alltaf verið til staðar.“
Díana segir að það sé mjög ríkt í Íslendingum að líta ekki á list sem neitt annað en áhugamál. „En list er miklu meira en það. Ég held ég hafi verið að þrjóskast. Ég vildi sýna sjálfri mér að ég gæti bæði unnið sem ljósmyndari og listamaður. En það þarf náttúrulega mikla þrjósku og að gefast aldrei upp.“
Hún hefur mætt mörgum hindrunum en segist hafa verið mjög heppin og fengið mörg tækifæri. Hún væri þó ekki með einkasýningu í Valencia ef hún hefði ekki haft trú á sjálfri sér.
Eins og að sjá barnið sitt þroskast
Díana hefur haldið fjölda sýninga, þar á meðal nokkrar einkasýningar á Íslandi. „En ég hef haldið margar samsýningar og sérstaklega erlendis. Valencia er yndisleg borg, ein elsta borg Evrópu og Spánar og var byggð fyrir rúmlega tvö þúsund árum. Það er þessi gamli spænski karakter sem er enn þá hér í borginni,“ segir Díana sem féll fyrir borginni.
Þegar Díana kom fyrst til Valencia fyrir nokkrum árum vissi hún að einn daginn vildi hún dvelja þar í lengri tíma. Fyrir ári lét hún til skarar skríða og fór þangað til sex mánaða dvalar. „Og af því að ég er listamaður þá náttúrulega varð ég að kynnast listaheiminum. Ég fór á mörg listamannaspjöll og margar sýningar. Þá var ég svolítið tekin inn í þennan listaheim.“
Eigendur Bloom Gallery, þar sem sýningin Rauðar flækjur er, hrifust af verki Díönu og hvöttu hana til að sækja um að sýna það þar. „Þá eiginlega fóru hjólin svolítið að snúast hér. En þetta var langt ferli, bæði að sækja um og fá samþykki.“
Aðsend
Það var mikil vinna að setja sýninguna upp og Díönu finnst einstaklega gaman að sjá verkið sitt, „sem byrjaði sem hugmynd í hausnum verða að stórri sýningu í næstum því 300 fermetra rými.“
„Það er eins og þú sért að sjá barnið þitt þroskast,“ bætir hún við. Hún hafi sjálf þroskast mikið á dvölinni í Valencia og af að halda sýningu. „Fyrsta einkasýningin er mjög stórt fyrir listamann.“
Komst í gegnum áföllin með von, trú og listinni
Díana segir viðtökurnar hafa verið einstaklega góðar. Verkið sé kraftmikið og hafi mikil áhrif á þá sem sjá það. Maður frá Úkraínu, búsettur í Valencia en á foreldra í Úkraínu, gaf sig á tal við Díönu á opnuninni. „Þegar ég fór inn í galleríið og myndirnar blöstu við mér, þá sá ég óttann og hræðsluna. En ég sá líka í lokin frelsið og vonina,“ sagði hann við hana og þakkaði henni fyrir að sýna þetta verk.
Rauðar flækjur afhjúpar sögu heimilisofbeldis og áfalla. „Verkið er um konu sem varð fyrir ofbeldissambandi, hún var í þessu sambandi í nokkur ár. Þegar þú ert í ofbeldissambandi þá er búið að brjóta þig svo mikið niður. Það er búið að brjóta sjálfsmyndina þína, sjálfstraustið þitt. Þessi kona er hetja í mínum augum,“ segir Díana um vinkonu sína sem tókst að koma sér út úr þessum aðstæðum. „Því þetta er ekki auðvelt.“
Ljósmyndir Díönu mynda heildstæða frásögn byggða á rannsóknum og frásögn konunnar. „Eins og sést á myndunum þá ber hún alveg gríðarlega mikið traust að ég segi hennar sögu. Allar hugsanir hennar og tilfinningar koma fram í myndunum. Síðan er það frelsið þegar hún losnar úr ofbeldissambandinu.“
Fljótlega eftir alvarlegustu árásina verður konan þó fyrir öðru áfalli því hún greinist með brjóstakrabbamein. Díana segir þessa konu hafa sótt í von, trú og listina sem hafi hjálpað henni að komast yfir þessi áföll. „Það er það sem heillaði mig svo mikið við þessa konu. Hún er svo mikil hetja.“
Aðsend/Díana Júlísdóttir
Plága í öllum samfélögum
Ljósmyndaverkið sýnir að það er hægt að komast út úr ofbeldissambandi með trúnni og voninni. „Vonin er svo sterk í verkinu. Það eru viðbrögðin sem ég fæ svo mikil þegar fólk hefur séð verkið mitt.“
Ljóðrænar ljósmyndirnar veki sterka tilfinningalega upplifun, opni augun fyrir ógn ofbeldis og hvetji til samkenndar og breyttra samfélagsviðhorfa. „Þetta er plága um allan heim. Þetta ofbeldi sem þrífst inni á heimilunum.“
Díana bendir á að á tíu mínútna fresti er ein kona drepin í heimilisofbeldi um allan heim. Það eru 140 konur á dag. Gerendur eru makar eða nánir fjölskyldumeðlimir samkvæmt skýrslu UN Women sem kom út í nóvember 2024.
„Þetta verk gerði ég 2022, svo þetta heldur stanslaust áfram. Þetta er plága í öllum samfélögum. Gríðarlega mikið, bæði á Íslandi og líka hér á Spáni. Þess vegna höfðu þau áhuga á að sýna þetta verk því þetta hefur samfélagsleg áhrif.“
Díönu þykir skipta máli að varpa ljósi á þessi málefni og sjálf reynir hún að segja sögu þessarar konu á eins nærgætinn hátt og hún geti. „Þetta eru stanslaus áföll sem hún er að vinna úr og ég er að segja hennar sögu. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir hennar sögu.“ Henni þykir frábært að geta ljáð konunni rödd.
„Við eigum líka að læra af því, sýna samkennd og hlusta.“ Eftir að hafa unnið svo náið saman, hún og viðfangsefni sýningarinnar, eru þær orðnar ofboðslega góðar vinkonur. „Þetta er ein dásamlegasta og fallegasta kona sem ég þekki.“
Rætt var við Díönu Júlíusdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.
Nafnalisti
- Bloom Gallery
- Díana Júlísdóttir
- Díana Júlíusdóttirljósmyndari
- Guðrún Gunnarsdóttirformaður dómnefndar
- WomenEcology and the Scientific Revolution
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1242 eindir í 85 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 78 málsgreinar eða 91,8%.
- Margræðnistuðull var 1,57.