Vonast eftir meiri sátt við brotthvarf Heiðu Bjargar
Brynjólfur Þór Guðmundsson
2025-03-18 09:23
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjajarðarsveitar, fagnar því að Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, hafi ákveðið að segja af sér sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Finnur Yngvi var búinn að leggja fram tillögu fyrir landsþing sambandsins, sem hefst á fimmtudag, um að hægt væri að víkja formanni úr embætti og kjósa nýjan. Tillöguna lagði hann fram vegna ummæla Heiðu Bjargar í fréttum RÚV um að hún styddi innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu kennara og sveitarfélaga.
Heiða Björg lýsti því yfir í Kastljósi í gærkvöld að hún hygðist láta af formennskunni.
Finnur Yngvi lýsti ánægju með ákvörðun hennar í Morgunútvarpinu á Rás 2.
„Ég held að það beri að þakka henni fyrir það. Það hlýtur að skapast þá meiri sátt um störf stjórnar og ég einhvern veginn efast ekki um að þetta hafi verið erfitt innan stjórnar síðustu misseri svo það er held ég heillaskref fyrir sambandið út kjörtímabilið.“
Finnur Yngvi sagðist telja að það hljóti að hafa verið erfitt fyrir stjórnina eftir að Heiða Björg lýsti stuðningi við innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu sveitarfélaga og kennara á sama tíma og sambandið hafnaði henni. Heiða Björg sagði þá koma til greina að Reykjavíkurborg myndi semja sér.
Samkvæmt tillögu Finns Yngva á að skipa starfshóp til að endurskoða samþykktir sambandsins þannig að hægt sé að víkja formanni úr embætti.
Finnur Yngvi sagði í Morgunútvarpinu að tillaga sín hafi ekki snúist um Heiðu Björgu sem persónu heldur almennt um stjórnarhætti. Tillagan hefði ekki orðið til þess að víkja Heiðu Björgu úr sæti formanns því hún hefði líklega aldrei tekið gildi fyrr en eftir að hún væri hætt sem formaður.
Deilt var á að Heiða Björg væri áfram formaður eftir að hún varð borgarstjóri. Áður hafa formenn verið bæjarstjórar í öðrum sveitarfélögum.
Finnur Yngvi sagðist telja mjög eðlilegt að setja skorður við því hvaða embættum formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gegnir samhliða því starfi sínu. Hann sagði að mikil togstreita gæti skapast milli ólíkra hlutverka. Í viðtali við Heiðu Björgu í Kastljósi í gær hafi hún einmitt talað um að vera fyrst og fremst kosin af Reykvíkingum. Hann sagði líka grundvallarmisskilning hjá henni að stjórnarmenn í sambandinu væru kosnir til að gæta hagsmuna íbúa síns sveitarfélags, þeir ættu að gæta hagsmuna allra.
Þegar sú staða kemur upp að formaður tjáir sig gegn því sem stjórn hefur ákveðið verður að vera hægt að bregðast við því, sagði Finnur Yngvi. Hann sagði að það ætti þó ekki að vera auðvelt að víkja formanni.
Nafnalisti
- Finnur Yngvi Kristinssonsveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar
- Heiða Björg Hilmisdóttirformaður
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 407 eindir í 20 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 20 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,65.