Demókratar unnu í Wisconsin en Repúblikanar í Flórída
Þorgrímur Kári Snævarr
2025-04-02 03:11
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Kosningar fóru fram í tveimur ríkjum Bandaríkjanna, Wisconsin og Flórída, í dag sem voru víða álitnar prófsteinn á frammistöðu ríkisstjórnar Donalds Trump fyrstu tvo mánuðina. Niðurstöðurnar eru nokkuð blendnar því frambjóðandi Demókrata vann kosningarnar til Hæstaréttar Wisconsin en frambjóðendur Repúblikana unnu kosningar um tvö auð sæti á fulltrúadeild Bandaríkjaþings í Flórída.
Hæstaréttarkosningarnar í Wisconsin
Kosningarnar í Wisconsin höfðu vakið óvenjumikla athygli miðað við kosningar um dómara í hæstarétti staks ríkis í Bandaríkjunum. Auðkýfingurinn Elon Musk, einn helsti ráðgjafi Trumps, hafði verið stórorður um þessar kosningar og hafði látið þau orð falla að „framtíð siðmenningar“ ylti á því að Brad Schimel, frambjóðandi Repúblikana, hlyti sæti við Hæstarétt Wisconsin.
Musk hafði verið mjög áberandi í hæstaréttarkosningunum og hafði gripið á það umdeilda ráð að gefa tveimur kjósendum gjöf að andvirði einnar milljónar Bandaríkjadala. Hann bauð jafnframt hverjum þeim sem tók þátt í undirskriftasöfnun til stuðnings Schimel hundrað dala greiðslu. Dómsmálaráðherra Wisconsin, Demókratinn Josh Kaul, jafnaði þessum gerningi við mútugreiðslu í skiptum fyrir atkvæði og reyndi að fá honum hnekkt fyrir dómi, en hafði ekki erindi sem erfiði.
Þrátt fyrir stuðning Musks og Trumps vann Susan Crawford, frambjóðandi Demókrata, auðveldan sigur í kosningunum til Hæstaréttarins. Með sigri hennar viðhalda frjálslyndir dómarar meirihluta í Hæstaréttinum og eru því í aðstöðu til að dæma um mikilvæg mál sem tengjast rétti til þungunarrofs og rétti til kjarasamninga. Frjálslyndi meirihlutinn kemur jafnframt til með að ráða næstu kjördæmaskiptingu Wisconsin, en ríkinu er nú skipt í kjördæmi sem þykja hagstæð Repúblikönum.
Þingkosningarnar í Flórída
Gengi Repúblikana var betra í Flórída. Þar höfðu tvö þingsæti á fulltrúadeild Bandaríkjaþings losnað eftir að þingmennirnir voru útnefndir til embætta í stjórn Trumps. Annað þeirra tilheyrði Michael Waltz, sem nú er þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, og hitt Matt Gaetz, sem sagði af sér eftir að Trump útnefndi hann í embætti dómsmálaráðherra. Tilnefning hans var síðar afturkölluð.
Repúblikanar eru með nauman meirihluta á fulltrúadeildinni og Demókratar vonuðust til að höggva enn frekar í hann með því að hreppa tvö þingsæti í Flórída. Flórída er í auknum mæli „rautt“ ríki sem Trump vann auðveldlega í forsetakosningunum í fyrra.
Þótt Repúblikanar hafi unnið bæði sætin kann tiltölulega naumur mismunur milli frambjóðendanna, miðað við stórsigur Trumps í sömu kjördæmum í fyrra, að vekja ugg hjá þeim um horfur flokksins í miðkjörtímabilskosningum á Bandaríkjaþing á næsta ári.
Nafnalisti
- Brad Schimel
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Elon Muskforstjóri
- Josh Kaul
- Matt Gaetzþingmaður
- Michael Waltz
- Susan Crawford
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 405 eindir í 19 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 15 málsgreinar eða 78,9%.
- Margræðnistuðull var 1,64.