Sæki samantekt...
Hljómsveitin Dream Wife var stofnuð í Brighton 2016 og hefur verið að gera gott mót á erlendri grundu. Sveitin hefur sent frá sér þrjár breiðskífur og komið fram víða um heim. Tónlistartímaritið Rolling Stones útnefndi sveitina sem eitt besta tónleikabandið á tónlistarhátíðinni Lollapalooza 2018. Söngkona sveitarinnar er íslensk og heitir Rakel Mjöll Leifsdóttir. Hún settist í sófann í Vikunni með Gísla Marteini og sagði aðeins frá hljómsveitinni áður en þau töldu í.
Stofnuðu sveit, skrifuðu undir samning og hafa svo flakkað um heiminn
„Ég kynntist hljómsveitarmeðlimum í háskólanum í Brighton, við vorum þar í listaháskóla,“ segir Rakel. „Og eins og maður gerir í listaháskóla þá stofnuðum við hljómsveit og fluttum svo til London og skrifuðum undir plötusamning og ferðuðumst svo um allan heim að spila tónlist.“ Síðan eru árin orðin átta. „Þetta er búið að vera virkilega fallegt hjónaband af því hljómsveitir eru hjónaband. Enda Dream Wife,“ segir hún og vísar til nafngiftar hljómsveitarinnar sem á íslensku mætti útleggja sem Draumaeiginkona.
Mæla ekki með að fara á stefnumót með tónlistarfólki
Sem fyrr segir flutti hljómsveitin lagið Hot (Don’t Date a Musician) í Vikunni með Gísla Marteini. Textinn fjallar eins og nafnið gefur til kynna um að það geti verið flókið að vera í ástarsambandi með tónlistarfólki. „Það vita kannski nokkrir hvað ég er að tala um,“ segir Rakel sposk. „Ég held að það sé kannski tímaleysið og fjarlægðin sem er ekki fyrir alla. Ég meina, tónlistin er indæl og þetta er spennandi líf en það er mikið af ferðalögum.“
Ást sem kviknaði á Seyðisfirði hreyfiafl fyrir hljómsveitina
Rakel er búsett í London en er stödd á Íslandi sem stendur. Hljómsveitin Dream Wife vinnur að sinni næstu plötu og ákvað að blása til tónleika í Iðnó í vikunni sem leið. „Við erum hér að taka upp plötu og semja líka. Það er reyndar önnur ástæða fyrir því að við erum hér,“ segir hún. „Við spiluðum á Lunga í hitt í fyrra og bassaleikarinn okkar varð ástfanginn af manneskju á Seyðisfirði og nýlega giftu þau sig á Seyðisfirði,“ segir hún. „Þau eru að sækja um að fá að vera hér af því þetta er allt orðið svo flókið núna eftir Brexit. Þau eru hálfföst á Íslandi og þess vegna komum við hingað til að klára þessa plötu.“
„Þetta er allt ástinni að kenna. Þannig ekki deita tónlistarmenn en það er allt í lagi að giftast þeim,“ segir Rakel.
Amma kynnti þær á svið í Iðnó
Ástæðan fyrir því að hljómsveitin valdi sér Iðnó sem tónleikastað er líka persónuleg. Amma Rakelar, Guðrún Ásmundsdóttir, starfaði um árabil sem leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur. „Þetta er allt henni að kenna,“ segir Rakel. „Við erum hér í tvær vikur í upptökum og hún amma mín er ægilega skemmtileg kona. Hún heimtaði tónleika og þá var væntanlega bara hringt í Iðnó á síðustu stundu og sem betur fer var laust.“
„Hún kom síðan og kynnti okkur á svið,“ segir Rakel um ömmu sína. Því miður var Guðrún fjarri góðu gamni í útsendingunni á föstudagskvöldið svo Dream Wife þurftu að gera sér það að góðu að Gísli Marteinn kynnti þau til leiks. „Hún kemur bara með okkur á tónleikaferðalag, 89 ára gömul og kynnir okkur á hverju einasta kvöldi. Er það ekki bara málið?“ segir Rakel. „Amma, ertu til?“
Rakel Mjöll Leifsdóttir var gestur í Vikunni með Gísla Marteini ásamt hljómsveitinni Dream Wife. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.
Nafnalisti
- Don’t Date a Musician
- Dream Wifehljómsveit
- Gísli Marteinnsjónvarpsmaður
- Guðrún Ásmundsdóttirleikkona
- Hotbeinn aðgangur
- Lollapaloozatónlistarhátíð
- Rakel Mjöll Leifsdóttirforsprakki hljómsveitarinnar Dream Wife
- Rolling Stoneshljómsveit
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 619 eindir í 40 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 38 málsgreinar eða 95,0%.
- Margræðnistuðull var 1,64.