„Ég hef borðað ís á nánast hverjum einasta degi síðan ég fæddist“
Júlía Aradóttir
2025-03-10 13:10
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
„Ég er auðvitað stolt og líka auðmjúk í þessum aðstæðum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir. Hún var fyrst kvenna til að ná kjöri formanns Sjálfstæðisflokksins. „Ég vil samt ítreka að ég er í flokki sem velur hæfasta einstaklinginn.“ Guðrún var í Vikunni með Gísla Marteini á föstudagskvöld.
Skrapp úr árshátíð þingmanna til að koma í Vikuna
„Ég var að koma beint úr partíi og fer í það aftur. Ég sleppti aðalréttinum og er að vonast til að ná desertnum.“ Guðrún brá sér úr þingveislu til að koma í Vikuna. „Þingveisla er eins og hárshátíð þingmanna. Þetta er eiginlega eini viðburðurinn þar sem þingmenn mæta með mökum sínum og eru í boði forseta þings. Forseti Íslands er alltaf heiðursgestur og það sem er sérstakt við þessa veislu er að það má ekki mæla í pontu nema í bundnu máli.“
„Ég myndi segja að hún væri hófleg,“ sagði Guðrún þegar hún var spurð hvort það væri mikil drykkja í veislunni. „Ég veit ekki hvernig ástandið verður þegar ég kem á eftir en það er hófdrykkja. Það ætla allir að mæta stoltir í vinnu á mánudaginn.“
Einhverjar breytingar í flokknum en þó ekki of miklar
Guðrún var kosin formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins 2. mars. Hún er fyrsta konan til að verða formaður flokksins sem lá fyrir í aðdraganda kosninganna því tvær konur voru framboði, Guðrún og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. „Það var merkilegt og vakti athygli og var kannski löngu tímabært,“ segir Guðrún. „Það hafa í nokkuð langan tíma konur verið varaformenn og Bjarni Benediktsson var búinn að sitja lengi sem formaður, í 16 ár.“
„Maður fann ekki fyrir því, hvorki í kosningabaráttunni né á fundinum, að fólki þætti þetta eitthvað skrítið,“ segir Guðrún. „Það var kominn tími og þetta var bara eðlilegt að það væru tvær mjög hæfar konur, þó ég segi sjálf frá, svo metur fólk hæfni og getu einstaklinga.“
„Það koma auðvitað alltaf breytingar með nýju fólki,“ segir Guðrún. „Þær munu bara koma í ljós. Það verður örugglega einhver áherslumunur og áferðarmunur en við erum samt íhaldsflokkur.“
Enginn tími fyrir sjónvarpsgláp í kosningabaráttu
Það var í nægu að snúast í kosningabaráttunni og Guðrún viðurkennir að hún fylgist lítið með því sem er í gangi í dægurmenningu. Hún hefur ekki mikinn tíma aflögu til að horfa á sjónvarpið. „Ég er örugglega eina manneskjan á Íslandi sem er ekki með aðgang að neinni streymisveitu, nema sjónvarpi Símans og ég horfi aldrei á það. Ég er ekki með Netflix eða neitt.“
„Ég horfi ekki á sjónvarp og drekk ekki kaffi. Ég segi oft: Ég er ekki á neinu örvandi. Ég drekk ekki koffín, ekki orkudrykki, ekkert svart,“ segir Guðrún. „Eftir að ég fór í stjórnmál þá sef ég óreglulega, borða óreglulega og hreyfi mig óreglulega. Það er bara ávísun á vandræði,“ segir hún. „En ég fer mikið út. Ég bý í Hveragerði og þar er stórkostleg náttúra og ég reyni, sérstaklega um helgar, að fara út að ganga. Það gerir mikið fyrir mig.“
Náttúran og fólkið það besta við Hveragerði
Guðrún er fædd og uppalin í Hveragerði og getur ekki hugsað sér að búa neins staðar annars staðar. „Þetta umhverfi sem er allt umlykjandi, náttúran og annað. Það eru mikil lífsgæði að þurfa bara að fara svona fjórar mínútur frá heimili þínu og þá ertu kominn í ósnortna náttúru,“ segir hún. „Og svo er það auðvitað mannlífið. Það er ofboðslega gott fólk í Hveragerði.“
Hefur borðað ís á hverjum einasta degi síðan hún fæddist
Foreldrar Guðrúnar eru Hafsteinn Kristinsson, forstjóri og stofnandi Kjöríss, og Laufey Valdimarsdóttir. Guðrún starfaði lengi hjá fjölskyldufyrirtækinu og tók við starfi framkvæmdastjóra Kjöríss þegar hún var 23 ára. „Ég er stundum spurð hvað sé uppáhaldsísinn minn og fólk heldur að ég muni svara einhverju exótísku en vanilluís er uppáhaldsísinn minn,“ segir Guðrún. „Það er ekki hægt að fela vondan ís með drasli, fylla hann af einhverju nammi. Ég vil ekki tyggja ís, ég þoli það ekki. Ef ég ætla að borða súkkulaði þá borða ég súkkulaði. Ís á að bráðna á tungunni,“ segir hún. „Ég hef borðað ís á nánast hverjum einasta degi síðan ég fæddist.“
Guðrún Hafsteinsdóttir var gestur í Vikunni með Gísla Marteini. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.
Nafnalisti
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttirnýsköpunarráðherra
- Bjarni Benediktssonformaður SJálfstæðisflokksins
- Forseti ÍslandsGuðni Th. Jóhannesson
- Gísli Marteinnsjónvarpsmaður
- Guðrún Hafsteinsdóttirfyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins
- Hafsteinn Kristinssonforstjóri Kjöríss
- Laufey Valdimarsdóttir
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 797 eindir í 54 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 53 málsgreinar eða 98,1%.
- Margræðnistuðull var 1,54.