Sæki samantekt...
Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir börn og fjölskyldur í Mjanmar í kjölfar jarðskjálfta sem reið þar yfir á föstudag með skelfilegum afleiðingum.
Var greint frá í dag að yfir tvö þúsund séu látnir í Mjanmar eftir skjálftann.
Talið að tala látinna muni hækka
Í tilkynningu frá Unicef segir að neyð barna og fjölskyldna muni nú versna hratt og hvetja samtökin alþjóðasamfélagið til að bregðast skjótt við og styðja aðgerðir í þágu barna og fjölskyldna á hamfarasvæðinu.
Kemur fram í tilkynningunni að skjálftinn og eftirskjálftar hafi valdið víðtækri eyðileggingu í Mjanmar. Gífurlegur fjöldi hafi látið lífið og þúsundir særst, þar á meðal mörg börn.
Þá sé talið að tala látinna muni hækka eftir því sem björgunaraðgerðir halda áfram og umfang hamfaranna verði ljóst.
Vinna með samstarfsaðilum á vettvangi
„Heimili, skólar, sjúkrahús og mikilvægir innviðir hafa orðið fyrir miklum skemmdum. Skriðuföll og hrunin vegakerfi hafa valdið rafmagns- og fjarskiptaleysi í mörgum byggðum. Fjölskyldur sem þegar bjuggu við brothættar aðstæður standa nú frammi fyrir enn meiri þjáningum, þar sem aðgangur að hreinu vatni, heilbrigðisþjónustu og skjóli er mjög takmarkaður,“ segir í tilkynningunni.
Eru nú Unicef-teymi á vettvangi á hamfarasvæðum þar sem unnið er með samstarfsaðilum og viðbragðsaðilum á staðnum að því að meta aðstæður og veita neyðaraðstoð.
Sendu 80 tonn af neyðar- og hjálpargögnum
Segir að hluti af fyrstu viðbrögðum samtakanna hafi verið að senda 80 tonn af neyðar- og hjálpargögnum, þar á meðal sjúkragögn, tjöld, hreinlætispakka, sótthreinsiefni og fleira, til að veita börnum og fjölskyldum tafarlausa aðstoð.
Þá sé Mjanmar ein af flóknustu mannúðarkrísum heimsins en segir að fyrir náttúruhamfarirnar hafi 6,5 milljónir bara verið í brýnni þörf fyrir aðstoð og hafi ein af hverjum þremur manneskjum á flótta verið barn.
Fjármagn ekki fylgt þörfinni
„En fjármagn hefur ekki fylgt þessari miklu þörf og greinir UNICEF frá því að innan við 10 prósent af mannúðarákalli UNICEF fyrir börn á svæðinu fyrir árið 2025 sé fjármagnað (e. Humanitarian Action for Children 2025).
UNICEF óskar því eftir stuðningi til að tryggja aukna afhendingu lífsbjargandi mannúðaraðstoðar til barna og fjölskyldna í Mjanmar, þar á meðal hreint vatn, heilbrigðisþjónustu, vernd, sálrænan stuðning og menntun við neyðaraðstæður.“
Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina hér.
Nafnalisti
- Barnahjálp SameinuðuUNICEF
- Humanitarian Action for Children
- UnicefBarnahjálp Sameinuðu þjóðanna
- UNICEFBarnahjálp Sameinuðu þjóðanna
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 383 eindir í 19 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 17 málsgreinar eða 89,5%.
- Margræðnistuðull var 1,72.