„Nóg fyrir mig að vera kominn í hóp flottustu kokka á Íslandi“
Ritstjórn mbl.is
2025-04-03 21:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Gabríel Kristinn Bjarnason sigraði keppnina Kokkur ársins 2025, sem haldin var um helgina í versluninni Ikea, með glæsibrag. Fimm komust áfram í úrslitin og keppnin var æsispennandi og hörð.
Gabríel stóð upp sem sigurvegari að lokum sem var verðskuldað enda búinn að reyna við titilinn þrisvar sinnum áður. Hann hefur frá unga aldri haft óbilandi ástríðu fyrir matreiðslu og fyrstu skrefin voru meðal annars tekin á Grillinu á Hótel Sögu þar sem foreldrar hans störfuðu.
Hann hefur starfað á virtum veitingahúsum hér á landi, keppt og þjálfað fyrir keppnismatreiðslu um allan heim og hefur í gegnum tíðina hlotið margar viðurkenningar, meðal annars silfurverðlaun með íslenska kokkalandsliðinu á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem fram fóru á síðasta ári. Einnig hefur hann hlotið titilinn Ungkokkur Norðurlandanna.
Mikill heiður að hafa unnið titilinn
Hvernig er tilfinningin að vera búinn að vinna titilinn Kokkur ársins?
„Að vera kokkur ársins fyrir mig er mikill heiður en mjög óraunverulegt ef ég á að segja alveg eins og er. Ég trúi þessu varla enn þá eftir alla þessa vinnu sem ég hef lagt á mig til að komast á þetta stig sem matreiðslumaður,“ segir Gabríel meyr.
„Þetta hefur verið draumur síðan ég mætti fyrst inn í keppniseldhús sem var árið 2017, þá sem aðstoðarmaður hjá Rúnari þegar hann keppti í keppninni Kokkur ársins. Mig minnir að hann hafi unnið það ár. Að horfa á hann lyfta bikarnum varð til þess að ekki var aftur snúið, ég ætlaði að ná sama árangri og setti markið hátt. Reyndar var pabbi mikill keppnismaður og keppti í þessu sama fagi þegar ég var yngri en ég pældi ekki mikið í þessu þá,“ segir Gabríel og hlær.
Hvernig undirbjóstu þig fyrir þessa keppni?
„Ég sagði við sjálfan mig núna, eftir að hafa tapað þessari keppni tvisvar sinnum, að gera það sem ég kann. Ekki vera að reyna að finna upp hjólið og reyna að gera eins bragðgóðan mat og ég get. Og treysta á reynsluna sem ég hef öðlast síðastliðin ár og hafa gaman að þessu. Það er númer eitt og njóta að vera á stærsta sviði matreiðslunnar á Íslandi, það eru ekki margir sem fá þennan heiður, hvað þá standa uppi sem sigurvegarar.“
Galdurinn að geta haldið ró sinni
Er ekki mikil áskorun að gera matseðil á klukkustund úr skylduhráefni eins og þið þurftuð að gera?
„Jú, klárlega, þeir mega eiga það að hráefnin voru ekki létt þetta árið, en eftir að hafa tekið þátt þrisvar sinnum áður var ég öruggari. Það kemur með tímanum að kunna að halda ró sinni og gera það sem maður kann vel. Það er í raun galdurinn.“
Gaman var að fylgjast með Gabríel keppa á gólfinu í Ikea þar sem fleiri þúsundir manna gengu í gegn og það virtist ekki trufla hann neitt. Aðspurður segist hann ekkert hafa tekið eftir fólkinu og það hafi ekki haft nein áhrif á hann.
Draumurinn að vinna Nordic Chef
Hvaða þýðingu mun titillinn hafa fyrir þig í framtíðinni?
„Að vera kominn í hóp flottustu kokka á Íslandi er nóg fyrir mig er æðisleg tilfinning. Næsta verkefni sem tekur við eftir þennan sigur er að fara keppa í Nordic Chef of the year sem ég vann keppnisrétt á og ég ætla að reyna taka þann titil líka, það er draumurinn núna.“
Þú gafst út þína fyrstu matreiðslubók, Þetta verður veisla, fyrir síðustu jól, ætlar þú að gefa út aðra bók?
„Það er góð spurning, veit ekki með bók, en mig hefur alltaf langað til að gera matreiðsluþætti en hver veit hvað gerist næst.“
Gabríel á mjög auðvelt með að þróa nýjar uppskriftir og það kemur sér vel í matreiðslukeppnum þegar tíminn er knappur fyrir skil á uppskriftum. „Þetta kemur til mín á einhvern hátt og sem betur fer hefur það borgað sig, til að mynda eins í keppninni um nýliðna helgi.
Hvað finnst þér skemmtilegast að matreiða?
„Mér finnst skemmtilegast að gera auðvelda og ferska forrétti úr góðu hráefni. Ég er ekki eins hrifinn af bakstri en ég kann eitthvað tengt bakstri en hef ekki lagt mikið púður í hann.“
Ólífukakan úr bókinni sló í gegn
Eftirrétturinn sem Gabríel valdi að gera í keppninni skoraði hátt og töfraði dómnefndina upp úr skónum. Það skemmtilega við hann er að kakan á disknum er ólífukakan úr bókinni hans, Þetta verður veisla.
Það verður spennandi að fylgjast áfram með Gabríel í framtíðinni og sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur næst en hann er líka á leið á heimsmeistaramótið í matreiðslu á næsta ári með íslenska kokkalandsliðinu og markmiðið er að koma heim með gullið.
Hér má sjá myndband af Gabríel vinna að sigrinum á laugardaginn síðastliðinn í keppninni Kokkur ársins 2025 sem haldin var í versluninni Ikea.
Hér má sjá diskana sem Gabríel skilaði, forrétt, aðalrétt og eftirrétt.
Nafnalisti
- Gabríel Kristinn Bjarnasonlandsliðskokkur
- Hótel Sögurakarastofa
- Nordic Cheftitill
- Nordic Chef of the
- RúnarKristinsson
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 841 eind í 43 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 34 málsgreinar eða 79,1%.
- Margræðnistuðull var 1,65.