Segir öll leyfi til að hýsa hælisleitendur í JL-húsinu liggja fyrir
Haukur Holm
2025-04-02 21:44
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að búið sé að ganga frá öllum leyfismálum svo hýsa megi hælisleitendur í JL-húsinu við Hringbraut í Reykjavík. Hún vonast til að friður ríki um starfsemina og trúir að auðvelt sé að búa í sátt og samlyndi við þær konur og börn sem þar dvelji.
Sextíu og níu kvenkyns hælisleitendur búa í JL-húsinu og þrettán börn, langflest frá Venesúela og mörg frá Úkraínu.
Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál komst að þeirri niðurstöðu í ársbyrjun að þessi notkun Vinnumálastofnunar á JL-húsinu væri ekki heimil og felldi leyfið úr gildi. Meðferð skipulagsfulltrúa borgarinnar á málinu hafi ekki verið rétt.
Segir allt frágengið
Ekki fór fram sérstök grenndarkynning á breyttri notkun hússins og kærði húsfélagið á Grandavegi 42, sem stendur þar nærri, notkunina. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að búið sé að leysa málið.
„á, það er búið að leysa það. Okkur er sagt að við séum með öll tilskilin leyfi hjá Framkvæmdasýslunni og skipulagsyfirvöldum í Reykjavík. Það er búið að leysa öll leyfismál þannig að okkur er frjálst að fara þarna inn.“
Nú var það einmitt út af skipulagsmálum sem niðurstaðan var að þetta væri óheimilt.
„Já, leyfið upphaflega var kært og fellt úr gildi, ég setti mig ekki almennilega inn í það, en mér skilst að það hafi verið mikið til vegna formgalla á afgreiðslunni, en það er búið að bæta úr því núna.“
Þannig að þetta á að vera núna alveg klárt?
„Alveg klárt, já.“
Unnur býst við, í ljósi fækkunar hælisleitenda, að á milli 200 og 250 hælisleitendur dvelji í húsinu að hámarki, miðað við leyfið, en hún efast um að til fullrar nýtingar komi.
Vonar að búið verði í sátt og samlyndi
Hún segir mikla hagræðingu fólgna í að hafa þessa aðstöðu, hún bjóði upp á margs konar þjónustu og sé vel staðsett. Hún segir að aldrei hafi verið kvartað undan íbúunum, ekki einu sinni fyrir tveimur árum þegar hópurinn var allt öðruvísi samsettur. Aðspurð hvort hún búist við viðbrögðum nágranna nú, segir hún:
„Ég veit það ekki, ég vona ekki satt að segja. Ég vona það innilega vegna þess að ég held að það verði engin röskun eða óþægindi af þessu fólki, ég bara segi það alveg eins og er. Ég hef fulla trú á því að það sé auðvelt að búa í sátt og samlyndi við þessa einstaklinga.“
Nafnalisti
- Forstjóri VinnumálastofnunarUnnur Sverrisdóttir
- Unnur Sverrisdóttirforstjóri
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 425 eindir í 23 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 22 málsgreinar eða 95,7%.
- Margræðnistuðull var 1,73.