„Þetta kemur eins vel við okkur og hægt er“
Eiður Þór Árnason
2025-04-02 21:58
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir það jákvætt að Bandaríkjastjórn hafi tekið ákvörðun um að leggja lægri toll á innflutning frá Íslandi en mörgum öðrum ríkjum. Miklu máli skipti að áformin liggi nú fyrir og að óvissu hafi verið eytt.
Tilkynnt var fyrr í kvöld að Bandaríkin hyggist leggja tolla á allan vöruinnflutning til landsins og verður tíu prósenta tollur settur á vörur frá Íslandi. Hlutfallið er mishátt eftir ríkjum og á að jafngilda helmingi þeirri tollprósentu sem útflutningsríkið leggur í dag á bandarískar vörur, en er þó aldrei lægra en tíu prósent. Sem dæmi hyggst Bandaríkjastjórn setja 34 prósent toll á innflutning frá Kína sem er sagt leggja 67 prósent álag á bandarískar vörur.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við fréttastofu að Bandaríkin séu mikilvægur markaður fyrir Íslendinga.
„Þetta þýðir að góðu fréttirnar fyrir Ísland er að það er lagður tíu prósent tollur á vörur frá Íslandi á meðan að tollur til dæmis á vörur frá Evrópusambandinu er tuttugu prósent og fimmtán prósent frá Noregi. Við sjáum líka miklu hærri tölur í öðrum löndum.“
Þó að þetta séu í grunninn slæmar fréttir þá komi þetta hlutfallslega betur við Ísland en mörg önnur ríki. Bandaríkin séu vaxandi markaður fyrir Ísland og útflutningur á vörum þangað verið að aukast.
„Þetta er mjög mikilvægur markaður fyrir hugverkaiðnað sem er fjórða stoð útflutnings og gæti orðið verðmætasta stoðin við lok þessa áratugar. Við höfum haft þær áhyggjur að ef aðgangur að Bandaríkjamarkaði yrði ekki eins greiður þá gæti það haft áhrif á vöxt hugverkaiðnaðs.“
Nú sé horft til Brussel
„Það er allavega mjög jákvætt að við erum í lægsta mögulega tolli. Eigum við ekki að segja að þetta kemur eins vel við okkur og hægt er,“ bætir Sigurður við.
„Svo er þá hitt sem er kannski ljósið varðandi þennan dag að óvissu hefur þá verið eytt. Óvissa hefur vofað yfir síðustu vikur og mánuði. Það hefur auðvitað haft mikil áhrif á margt, markaði og annað en núna er allavega búið að segja hvað er í vændum.“
Óvissan núna snúi þá að Evrópusambandinu og hvernig það muni bregðast við ákvörðun Bandaríkjastjórnar. Samtök iðnaðarins hafa sagt að versta mögulega niðurstaðan fyrir Ísland væri að klemmast á milli og lenda í tollum báðum megin.
„En ég veit það að íslensk stjórnvöld með utanríkis- og forsætisráðherra í fararbroddi hafa verið ötul í því að tala máli Íslands og gæta okkar hagsmuna þannig að ég er sannfærður um það að þau samtöl muni bera árangur,“ segir Sigurður. Afrakstur þeirrar vinnu komi betur í ljós á næstu dögum þegar leiðtogar Evrópusambandsins tilkynni sínar mótaðgerðir.
Fréttin er í vinnslu.
Nafnalisti
- Sigurður Hannessonframkvæmdastjóri
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 454 eindir í 23 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 22 málsgreinar eða 95,7%.
- Margræðnistuðull var 1,70.