Fleiri en þúsund látnir eftir jarðskjálfta í Mjanmar og Taílandi
Hugrún Hannesdóttir Diego
2025-03-29 04:01
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Rúmlega þúsund eru látnir eftir snarpan jarðskjálfta sem reið yfir Mjanmar og Taíland í gærmorgun og fleiri en 2.000 eru slasaðir. Stjórnvöld í Mjanmar sögðu frá því í nótt að 1.002 hefðu fundist látnir. Að minnsta kosti tíu hafa fundist látnir í Taílandi. Yfirvöld í ríkjunum segja að til viðbótar séu 2.376 slasaðir í Mjanmar og sextán í Taílandi.
Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna áætlar að þúsundir gætu hafa farist miðað við styrk skjálftans.
Áhrif jarðskjálftans voru hve mest í Mandalay þar sem fjöldi bygginga er rústir einar. Rafmagn og fjarskiptakerfi liggja einnig niðri í bæði Mandalay og borginni Yangon. Mandalay er næst stærsta borg Mjanmar og liggur um miðbik landsins. Yangon er stærsta borg landsins. Hún er í sunnanverðu Mjanmar, í um 600 kílómetra fjarlægð frá Mandalay.
Skjálftinn var 7,7 að stærð og honum fylgdi eftirskjálfti af stærðinni 6,4. Skjálftinn fannst einnig á Indlandi.
Búist er við því að leit og björgun standi dögum saman. Um hundrað er leitað í rústum þriggja mannvirkja sem voru enn í byggingu í Bangkok, höfuðborg Taílands.
Herstjórn Mjanmar óskaði eftir alþjóðlegri aðstoð, sem er afar fátítt. Bandaríkin, Kína, Indland, Evrópusambandið og ASEAN, bandalag Suðaustur-Asíuríkja, hafa heitið stuðningi.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Nafnalisti
- ASEANSamband Suðaustur-Asíuríkja
- Mandalayborg
- Yangonborg
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 217 eindir í 17 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 17 málsgreinar eða 100,0%.
- Margræðnistuðull var 1,84.