Safna fyrir nýju Kvennaathvarfi: „Þú ert ekki ein með þessa upplifun, þú ert ekki ein með þessa reynslu“
Anna María Björnsdóttir
2025-04-01 08:58
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
„Markmið Kvennaathvarfsins er náttúrlega að það verði engin þörf fyrir kvennaathvarf. Við ættum í raun alltaf að vera að minnka húsnæðið en því miður þá er alltaf þörf á því að stækka það,“ segir Álfheiður Ingadóttir sem var ein fjölda kvenna sem stóð að baki opnun Kvennaathvarfsins þann 6. desember 1982.
Átakið Á allra vörum stefnir að þessu sinni á að byggja nýtt Kvennaathvarf og nær hámarki þessa vikuna með söfnunarþætti á laugardaginn á RÚV. Þær Guðný Pálsdóttir, Elísabet Sveinsdóttir og Gróa Ásgeirsdóttir standa að baki Á allra vörum og hafa í gegnum það styrkt mörg góðgerðasamtök og félög. Þær hrundu átakinu af stað í ár með því að gefa upphafskonum Kvennaathvarfsins fyrstu varasettin.
Þær Álfheiður, Elísabet og Guðný voru gestir Mannlega þáttarins á Rás 1.
Vakti tröllskessuna af værum svefni
Á allra vörum hefur legið í dvala frá árinu 2019. „Við vorum alltaf árlega frá byrjun, 2008 til 2013, svo fórum við að gera þetta annað hvert ár því þetta var ansi mikið. Svo kom covid eftir átakið okkar 2019 og þá hugsuðum við með okkur: Jæja, nú hvílum við okkur,“ segir Elísabet.
„Svo er það stundum þannig að þegar maður er of værukær þá einhvern veginn lognast hlutirnir, verða rólegri.“ Þegar Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Kvennaathvarfsins, hringdi í Gróu var eins og hún væri að „vekja tröllskessuna í fjallinu sem hafði verið sofandi.“
„Við hlæjum stundum að þessu og við þökkum Lindu bara fyrir að hafa vakið okkur, því auðvitað gátum við ekkert sagt nei við hana þegar kallið kom,“ segir Elísabet.
Kvennaathvarfið á stað í hjörtum þjóðarinnar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Á allra vörum safnar fyrir Kvennaathvarfinu því það gerðu þær líka árið 2017. „Þá vantaði íbúðir til lengri dvalar, eftir að þú hafðir kannski verið í Kvennaathvarfinu og hafðir kannski ekki í nein hús að venda eftir dvölina þar. Þannig við byggðum hús með 13 íbúðum sem var sjúklega fallegt og vel heppnað,“ segir Elísabet.
„Kvennaathvarfið á stað í okkar hjörtum og ég held að það eigi stað í hjörtum þjóðarinnar.“
Græða á tengslamyndun og væntumþykju
Í gegnum árin hafa þær stöllur tekið þátt í níu átökum og safnað yfir milljarði íslenskra króna. „Við gerum þetta náttúrlega ekki þrjár,“ segir Guðný. „Þetta er alveg ofboðslega stór hópur af fólki sem hjálpar okkur þegar við förum af stað.“
Það sem þær hafi grætt á þessu verkefni sé tengslamyndunin. „Við höfum ekki verið að taka neinn pening fyrir þetta og fólk spyr; hvernig getið þið þetta með allri þessari vinnu? En við höfum grætt ofsalega á tengslaneti og væntumþykju frá öllum sem eru með okkur í þessu,“ segir Guðný.
Átti aldrei að verða gert aftur
Guðný og Gróa hafa þekkst lengi og unnu saman hjá Icelandair þegar Gróa fékk brjóstakrabbamein. „Þá fór hún í smá þyngsl yfir því að allir væru að gefa henni blóm. Við fórum að hugsa hvað við gætum gert, hana langaði að gefa eitthvað til baka,“ rifjar Guðný upp um upphaf átaksins Á allra vörum.
„Ég man alltaf þann dag sem ég fór og hitti Ásgeir í Halldóri Jónssyni, þegar ég kom með þessa pælingu að fara að selja 20 þúsund glossa um borð í Icelandair-vélunum. Hann svitnaði alveg á efri vörinni.“
Þannig hafi þær Elísabet kynnst því í þá daga hafði Elísabet yfirumsjón með sölu um borð og fleiru. „Guðný kemur með þessa klikkuðu hugmynd, ég fer með hana fyrir stjórn. Mjög margar flugfreyjur höfðu lent í því að fá krabbamein þannig þetta var auðveld leið þangað inn. Flugfreyjufélagið samþykkti að selja þetta án þóknunar.“
Það ár söfnuðu þær fyrir brjóstamyndatæki. „Þetta er upphafið og þetta átti aldrei að verða aftur. Svo bara klikkaði eitthvað á milli okkar þriggja, sem betur fer, og við ákváðum að vera ekkert að skilja að skiptum heldur bara halda áfram. Við höfum eiginlega verið eins og systur síðan, og mikið meira en það.“ Guðný þakkar einnig skilningsríkum yfirmönnum fyrir að gera þeim kleift að stökkva frá vinnu líkt og þær séu í útkalli Landsbjargar.
Báru peningana út í pokum
Álfheiður segist dást mikið að þeim Elísabetu, Guðnýju og Gróu fyrir þeirra starf. „Það er ekkert einfalt að safna milljarði króna í níu skipti til góðra málefna og Kvennaathvarfið naut sannarlega góðs af þessu árið 2017. Ég er alveg sannfærð um að það verður áfram núna tekið vel á móti þessu öllu.“
Hún rifjar upp fyrstu fjársöfnun Kvennaathvarfsins sem var haldin vorið 1983. „Þá seldum við límmerki, barmmerki, sem voru reyndar mjög ódýr í framleiðslu og mig minnir að þau hafi kostað 50 kall.“ Einn daginn hafi Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, mætt Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, við Lækjartorg og sagt: „500 kall fyrir þig.“
„Svona var þetta. Einu sinni fréttum við af því að íslenskir iðnrekendur væru með ársþing á Hótel Sögu. Þangað fórum við eins og hvít stormsveit og gengum út með fulla plastpoka af peningum.“
Gríðarleg gerjun í samfélaginu
Kvennaathvarfið var stofnað í kjölfar heildarvakningar um stöðu kvenna í samfélaginu. „Það má rekja þetta svo sem aftur til ‚ 68 hreyfingarinnar sem var alþjóðleg. En hér á landi þá eru þetta klárlega Rauðsokkurnar sem koma fram með sitt agenda 1970 og svo ‚ 75 er kvennaverkfallið. 1980 er Vigdís kosin forseti. Á þessum árum er gríðarlega mikil gerjun.“
Fyrsta kvennaathvarfið var opnað í London í Englandi 1976 og þegar hér voru stofnuð samtök um kvennaathvarf þá var búið að opna slíkt á nær öllum Norðurlöndunum hinum. Sjálf heimsótti Álfheiður athvarfið í Osló í Noregi. „Þannig að þegar við komum saman til undirbúnings haustið ‚ 81 þá var fyrir nokkur þekking og reynsla.“
Inntakið var að viðurkenna að konur væru virkilega beittar ofbeldi
Það sem Álfheiður telur hafa skipt sköpum í hve vel hafi gengið að koma Kvennaathvarfinu á fót var samtakamátturinn. „Það var algjör þögn um heimilisofbeldi. Það mátti ekki ræða þetta. Þetta þótti mikil skömm, konur fóru með þetta í felur. Leituðu fyrst til fjölskyldna sinna og svo fengu fjölskyldurnar nóg af því að þær fóru alltaf aftur heim, höfðu ekki í önnur hús að venda.“
Það hafi þótt mjög tabú að ræða heimilisofbeldi. „Inntakið í þessari nýju kvennahreyfingu var í rauninni að viðurkenna og nýta sameiginlega reynslu kvenna; Þú ert ekki ein með þessa upplifun, þú ert ekki ein með þessa reynslu. Og nýta samtakamáttinn á þann hátt.“
Þarna hafi verið konur alls staðar af úr samfélaginu saman komnar til að undirbúa Kvennaathvarfið. „Það var bara ótrúlegt. Við renndum alveg blint í sjóinn.“
Stofnfundurinn var haldinn á Hótel Esju í litlum sal uppi á lofti. Það hafi verið hægt að stækka salinn sem og þær gerðu þrisvar sinnum vegna þess að rúmlega 200 manns mættu á fundinn. „Það var ótrúlegt.“
Það hafi verið augljóst á þessum stofnfundi að þörf fyrir kvennaathvarf væri fyrir hendi. „Það sem var svo makalaust þegar maður kom á þennan fund var, af því að venjulega koma konur á svona með vinkonum sínum og í hópum, en þarna komu konur einar. Það var það sem við tókum eftir.“
Þriggja ára drengur svaf í tvo sólarhringa því hann fann loks öryggi
Þegar Kvennaathvarfið var fyrst opnað komu strax tvær konur með tvö eða þrjú börn. Álfheiður segir barnafjöldann vera það sem hafi komið sér mest á óvart og þess vegna hafi verið ráðinn sérstakur barnastarfsmaður þegar þau áttu efni á því.
„Það kom þarna lítill drengur, á að giska þriggja ára gamall, með móður sinni. Þetta var nú ekki merkilegt húsnæði, þetta var uppi á lofti undir risi og þar fengu þau herbergi. Hann sofnaði og svo svaf hann og svaf og svo svaf hann svo lengi og svo djúpt að við vorum orðnar hræddar og sóttum lækni.“
Læknirinn hafi komið og skoðað barnið þegar það var búið að sofa í tæpa tvo sólarhringa. „Það er ekkert að þessu barni, það þurfti bara hvíld og öryggi sem hann er búinn að finna núna. Leyfum honum bara að klára sinn svefn,“ sagði læknirinn.
Ætla að safna 100 milljónum
Nú er Kvennaathvarfið að safna fyrir nýju húsnæði. Álfheiður segir markmið Kvennaathvarfsins vera að á endanum sé ekki þörf á því lengur en því miður sé hið andstæða raunin. „Það er alltaf þörf á því að stækka það.“
Þarfirnar hafi breyst með tímanum og nú sé meira leitað eftir ráðgjöf, bæði í síma og persónulegum viðtölum, heldur en eiginlegri dvöl. „En það er alltaf þörf fyrir gott húsnæði til þess að taka á móti konum og börnum, það er alltaf pláss, alveg sama hvað,“ áréttar hún. „Húsnæðið verður aldrei of lítið, en það þarf að stækka það.“
Söfnunarþátturinn Byggjum nýtt Kvennaathvarf verður á dagskrá RÚV laugardaginn 5. apríl klukkan 19:45. Í þættinum kynnast áhorfendur starfi athvarfsins og fá að heyra reynslusögur kvenna og barna sem hafa dvalið þar.
Varasettin eru til sölu í flestum verslunum Hagkaupa og apótekum og völdum snyrtivöruverslunum. „Þau eru að verða búin þannig að drífið ykkur út í búð og tryggið ykkur eintak,“ segir Elísabet. Þær hafi sett sér það ásett sér að safna 100 milljónum króna. „Við höfum háleit markmið, þetta er það markmið sem við höfum sett okkur og við ætlum bara að ná því.“
Rætt var við Álfheiði Ingadóttur, Guðnýju Pálsdóttur og Elísabetu Sveinsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.
Nafnalisti
- Álfheiður Ingadóttirfyrrverandi heilbrigðisráðherra
- Ásgeireinnig handritshöfundur og leikstjóri þáttanna
- Elísabet Sveinsdóttirmarkaðsstjóri
- Esjakjötvinnsla
- Gróa Ásgeirsdóttirritari
- Guðný Pálsdóttirvinkona
- Guðnýr
- Halldór Ásgrímssonþáverandi utanríkisráðherra
- Halldór Jónssonforstjóri Steypustöðvarinnar
- Hótel Sögurakarastofa
- Linda Dröfn Gunnarsdóttirframkvæmdastýra Kvennaathvarfsins
- Margrét Pála Ólafsdóttirstofnandi Hjallastefnunnar
- Vigdíslögfræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 1684 eindir í 101 málsgrein.
- Það tókst að trjágreina 90 málsgreinar eða 89,1%.
- Margræðnistuðull var 1,67.