Ríkið kaupir tæknibúnað fyrir milljarða árlega og samhæfing er lítil sem engin
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
2025-04-02 16:30
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Kostnaður vegna innkaupa ríkisaðila á upplýsingatækni er mikill og samhæfing hefur verið lítil sem engin þrátt fyrir að stofnanir séu margar og smáar og hafi takmarkaða þekkingu á upplýsingatækni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hraðúttekt Ríkisendurskoðunar á innkaupum ríkisaðila á upplýsingatækni.
Í úttektinni er því beint til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að auka þurfi samræmingu í tækniumhverfi ríkisins, greina þurfi hugbúnað ríkisaðila, fylgja þurfi eftir reglum um innkaup og festa leiðbeiningar í sessi.
Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun vegna málsins segir að kostnaður vegna innkaupa ríkisaðila á upplýsingatækni hafi verið metinn 12 til 15 milljarðar króna árlega og að stefna, stjórnun og rekstur upplýsingatæknimála hafi verið dreifstýrð og ábyrgð legið hjá einstökum stofnunum.
Þar segir að stigin hafi verið skref í átt að því að minnka vægi dreifistýringar, svo sem með verkefninu Stafrænu Íslandi sem hafi samræmt nálgun um stafræna þjónustu, en að eiginleg ábyrgð stofnana á upplýsingatæknimálum hafi ekki breyst.
Ríkisendurskoðun telur að efla þurfi stýringu á upplýsingatæknimálum ríkisaðila og gera þurfi ráðstafanir til að bæta undirbúning við innkaup á hugbúnaði og líta til annarra möguleika eins og sameiningar á einstaka upplýsingatæknieiningum ríkisins.
Í skýrslunni kemur fram að þrír birgjar séu með langstærstan hluta af viðskiptum ríkisaðila vegna kaupa á sérsmíðuðum hugbúnaði, þar af einn með 60 prósent.
Nafnalisti
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 217 eindir í 7 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 6 málsgreinar eða 85,7%.
- Margræðnistuðull var 1,67.