Óttast afleiðingar efnahagsstefnu Trumps á Ísland
Magnús Geir Eyjólfsson
2025-03-11 13:00
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Seðlabankinn hefur hafið vinnu við að greina áhrif efnahagsstefnu Bandaríkjastjórnar á íslenskan þjóðarbúskap. Þetta kom fram á opnum nefndarfundi með seðlabankastjóra í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri mættu fyrir nefndina í morgun til að gera grein fyrir síðustu vaxtaákvörðun þar sem vextir voru lækkaðir um hálft prósentustig. Seðlabankastjóri sagðist bjartsýnn á að verðbólga haldi áfram að minnka með vorinu og að samhliða því ættu vextir að geta haldið áfram að lækka en bætti við að lokaspretturinn verði erfiður. „Og við óttumst auðvitað alls konar hluti sem gætu komið til okkar að utan.“
Þarna er Ásgeir fyrst og fremst að vísa í efnahagsstefnu Donalds Trump, en kaotísk stefna hans í tollamálum og efnahagsmálum almennt virðist stefna bandaríska hagkerfinu í samdrátt. Afleiðingarnar fyrir Ísland gætu orðið margs konar. Vegna tollastríðanna hafa aðfangakeðjur rofnað og segir Ásgeir að það sama gæti gerst og gerðist eftir covid, að vörur á heimsmarkaði gætu hækkað í verði. Tók hann sem dæmi bíla og þvottavélar.
„Svo er líka það sem getur gerst er að ferðalög á milli landa gætu hætt og við sjáum þegar þau áhrif þessi leiðindi sem eru á milli Kanada og Bandaríkjanna hafa leitt til þess að Kanadamenn eru hættir að fara til Bandaríkjanna og Bandaríkjamenn eru hættir að fara til Kanada. Þessi óvissa og þær tölur sem ég hef séð úti í Bandaríkjunum er að fólk er byrjað að fresta ákvörðunum. Fresta ákvörðunum um að kaupa nýtt heimili, fresta ákvörðunum um að fara á eftirlaun. Og það sem gerist er að þegar fólk fer að verða óöruggt fer það að fresta ferðalögum. Það liggur fyrir að ferðaþjónustan okkar hefur að miklu leyti verið rekin áfram af ferðalögum frá Bandaríkjunum, bandarískir ferðamenn.“
Áhrifin myndu svo magnast enn frekar ef Ísland myndi lenda á milli í tollastríðum stórveldanna. Minni eftirspurn yrði eftir íslenskum vörum, útflutningur dragast saman og innfluttar vörur hækka í verði. Varaseðlabankastjóri fór heldur ekki leynt með skoðun sína á því sem er í gangi vestanhafs.
„Það er verið að vinda ofan af þróun sem hefur verið í gangi síðustu 50 árin eða svo og hefur leitt til gríðarlegrar velmegunar um allan heim. Lyft milljónum fólks úr sárri fátækt og leikið lykilhlutverk í að lækka verð á vörum út um allan heim. Nú er verið að vinda ofan af þessu og það mun auðvitað skaða okkur öll. Bæði núna þegar það á að hækka tolla, það hækkar verð á innfluttum vörum og svo framvegis. En líka við að vinda ofan af þessu þéttriðna neti sem er búið að byggja upp í áratugi. Það mun líka leiða til langtímaskaða,“ sagði Þórarinn G. Pétursson.
Hann segir að Seðlabankinn sé að fylgjast með þróuninni en duttlungafull stefna Trumps geri það erfitt fyrir. „Það er vandasamt að fylgjast með að meta hvað er þarna á ferðinni þegar það er tekin ákvörðun um þetta á klukkutíma fresti.“
Nafnalisti
- Ásgeir JónssonSeðlabankastjóri
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- Þórarinn G. Péturssonaðalhagfræðingur
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 502 eindir í 25 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 21 málsgrein eða 84,0%.
- Margræðnistuðull var 1,56.