Með engu móti hægt að réttlæta launahækkun Heiðu
Bjarki Sigurðsson
2025-03-08 19:31
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Laun fyrir formennsku hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa hækkað um 170 prósent á tveimur árum. Formaður Eflingar segir hækkunina óskiljanlega og að ekki sé hægt að réttlæta hana með neinu móti.
Í Morgunblaðinu var vakin athygli á því að laun Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra fyrir formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi hækkað um 170 prósent á einungis tveimur árum. Á sama tíma hafi orðið litlar breytingar á störfum formanns. Stjórnin fundi einu sinni í mánuði á staðfundi en nýlega bættist við styttri fjarfundur til að einfalda afgreiðslu mála og auka skilvirkni.
Í byrjun árs 2023 voru laun fyrir formennsku 285 þúsund krónur á mánuði. Í upphafi þessa árs voru launin orðin 763 þúsund á mánuði. Tæplega þreföldun á tveimur árum. Ofan á þetta fær hún svo rúmar hundrað þúsund krónur vegna aksturs.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir launahækkunina óskiljanlega.
„Ég skil ekki hvernig pólitísk yfirstétt getur skammtað sjálfri sér þessi launakjör. Nú eru bæði Reykjavíkurborg og sveitarfélögin viðsemjendur Eflingar og þar erum við að gera kjarasamninga við ómissandi fólk, í umönnunarstörfum, hjá leikskólunum. Þar þurfum við að berjast fyrir hverjum einasta þúsund kalli. Viðkvæðið er alltaf að það sé ekkert til, allir séu svo skuldsettir og svo framvegis. Svo les maður fréttir af þessu,“ segir Sólveig.
Það myndi engum detta í hug að nefna 170 prósent launahækkun á öðrum vettvangi.
„Ef mér myndi detta það í hug að biðja um þetta fyrir fólk sem á það svo sannarlega skilið, yrði allt vitlaust og ég hlegin burt,“ segir Sólveig.
Fréttastofu hefur ekki tekist að ná í Heiðu Björgu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag og illa hefur gengið að fá skýringar á hækkuninni. Sólveig segir ekki vera hægt að réttlæta hana.
„Það er ekki hægt og það mun enginn geta gert það. Hún mun ekki geta gert það, hennar fulltrúar munu ekki geta gert það. Ef einhver reynir það er það bara annað hvort einhver pólitísk örvænting eða meðvirkni sem á ekki að líðast í lýðræðissamfélagi,“ segir Sólveig.
Nafnalisti
- Formaður EflingarSólveig Anna Jónsdóttir
- Heiða Björg Hilmisdóttirformaður
- Sólveig Anna Jónsdóttirfyrrverandi formaður Eflingar
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 345 eindir í 22 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 20 málsgreinar eða 90,9%.
- Margræðnistuðull var 1,60.