Af hverju er dalurinn að veikjast þvert á væntingar?
Ritstjórn Viðskiptablaðsins
2025-04-03 13:43
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Bandaríkjadalur, sem átti að styrkjast við nýja tolla Donalds Trump, hefur í staðinn veikst verulega.
Samkvæmt The Wall Street Journal veldur þetta ugg meðal fjárfesta sem telja að tollastefna forsetans grafi undan trausti á langtímahagvexti Bandaríkjanna og spilli stöðu dalsins sem forgangsgjaldmiðils heimsins.
Þegar Donald Trump forseti kynnti nýja víðtæka tolla undir heitinu „Frelsisdagstollar“ í gærkvöldi brugðust markaðir harkalega.
Verðfall varð á hlutabréfamörkuðum í Asíu og Evrópu og hafa bandarísk hlutabréf verið að lækka í framvirkum samningum í dag.
Það sem þó kom sérfræðingum mest á óvart var hversu hratt Bandaríkjadalur féll.
WSJ Dollar Index, sem mælir styrk Bandaríkjadals gagnvart helstu gjaldmiðlum, hefur lækkað um meira en 5% á þessu ári og stendur nú lægra en fyrir kosningasigur Trump í nóvember.
Þetta gengur þvert á væntingar markaðsaðila sem áttu von á að verndartollar myndu þrengja viðskiptahalla og þar með styrkja gjaldmiðilinn.
Af hverju veikist dollarinn?
Tollar ættu tæknilega séð að draga úr innflutningi og minnka eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. En markaðir horfa víðara nú en áður: Traust á langtímaefnahag Bandaríkjanna hefur dalað, og það hefur áhrif á verðmæti gjaldmiðilsins.
Sérfræðingar benda á að markaðir horfi nú meira til langtímavaxta og framleiðnivöxts en til stuttra reiknilíkana um viðskiptajöfnuð. Með öðrum orðum: ef traustið á hagkerfi Bandaríkjanna minnkar veikist dollarinn, óháð skammtímaáhrifum tolla.
Sumir fjárfestar telja einnig að fjandsamleg viðskiptastefna gagnvart bandamönnum grafi undan stöðu bandaríkjadalsins sem alþjóðlegrar varagjaldmiðils.
Í anda þeirrar stefnu hafa ráðgjafar Trump talað fyrir því að draga úr eignarhaldi erlendra seðlabanka á bandarískum ríkisskuldabréfum, þar sem það sé „of mikill byrði“ fyrir bandarískt efnahagslíf.
Langtímaefnahagsvöxtur í brennidepli
Ástríðan fyrir tollum endurspeglar nýja sýn á alþjóðaviðskipti, þar sem áhersla er sett á sjálfbærni og framleiðslu innanlands. En þessi stefna er ekki vænleg til árangurs þegar hagfræðileg gögn eru skoðuð, að mati greinarhöfunda WSJ.
Hlutfall bandaríkjadals í gjaldeyrisforða heimsins hefur staðið í stað síðan 2018, á meðan dalurinn sjálfur styrktist um 16%, samkvæmt gögnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Það bendir til þess að erlendar opinberar fjárfestingar valdi ekki ofmati á gjaldmiðlinum — þvert á móti.
Það sem virðist í raun ráða ferðinni er að markaðir eru farnir að draga í efa framleiðnivöxt og arðsemi bandarísks viðskiptalífs.
Með vaxandi efasemdum um framtíðarvöxt, dregur einnig úr trausti á dollarinn.
Sjá einnig]] Trump í tollastríði-hvað nú?
Veiking bandaríkjadalsins er því ekki aðeins efnahagslegt viðbragð við tollum, heldur pólitískt mat á framtíð Bandaríkjanna í alþjóðlegu samhengi.
Þar skiptir traust á langtímaframleiðnivexti meira máli en viðskiptajöfnuður einn og sér.
Það má segja að Trump hafi fengið það sem hann sagðist vilja, veikari dal, en kannski ekki með þeim hætti sem þjóni hagsmunum Bandaríkjanna til lengri tíma.
Nafnalisti
- Donald Trumpþáverandi forseti Bandaríkjanna
- The Wall Street Journalbandarískt dagblað
- WSJtímarit
- WSJ Dollar Index
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 469 eindir í 25 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 23 málsgreinar eða 92,0%.
- Margræðnistuðull var 1,59.