Mundi eftir að hafa keypt uppáhaldskexið sitt en ekki að hafa flutt inn fíkniefni
Iðunn Andrésdóttir
2025-03-31 17:36
Upphafleg grein
Sæki samantekt...
Síðasta vitnið var kallað fyrir í héraðsdómi í aðalmeðferð stærsta metamfetamín-máli Íslandssögunnar í dag. Fjórir eru ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot og tvö önnur fyrir hlutdeild í þessum brotum. Öll neita sök.
Á föstudaginn var tekin skýrsla af tveimur mönnum sem eru taldir hafa skipulagt innflutning fíkniefnanna auk tveggja manna sem fengnir voru til að flytja þau inn.
Mennirnir fóru til Evrópu til að festa kaup á bíl sem var síðan fluttur sjóleiðis til Íslands. Í honum leyndust um það bil 6 kíló af metamfetamíni. Fyrir þetta áttu mennirnir, sem voru heimilislausir á þessum tíma, að fá greidda um hálfa milljón króna samanlagt frá mönnunum tveim sem eru sakaðir um að hafa skipulagt innflutning fíkniefnanna. Við skýrslutöku á föstudaginn kom fram að götumarkaðsvirði efnanna sé talið um 200 milljónir.
Ber fyrir sig minnisleysi
Vitnið sem kom fyrir dóminn í dag er matsaðili hjá Minnismóttöku Landspítalans sem lagði mat á vitsmunalega getu eins sakborninganna sem er sagður þjást af vægri heilabilun.
Annar mannanna sem flutti bílinn inn ber fyrir sig að hafa ekki vitað að í honum væru fíkniefni fyrr en heim var komið. Hinn hafði takmarkaða getu til að svara fyrir sig fyrir dómstólum á föstudaginn sökum heilabilunar sinnar.
Til álita kom hversu alvarleg heilabilun mannsins er og hversu stóran þátt áfengisneysla kunni að hafa átt í minnistapi hans.
Matsaðilinn sem bar vitni í dag segist hafa fengið manninn til athugunar í október árið 2024 og byggt mat sitt á prófum, athugun í gegnum viðtal og frásögn náins aðstandenda sem í þessu tilfelli var meintur samverkamaður hans í málinu.
Telur manninn þurfa að dvelja á hjúkrunarheimili
Aðspurður segir hann manninn vera með skýr einkenni heilabilunar. Erfitt sé að segja til um hvenær slík einkenni hafi byrjað að segja til sín eða hversu langt gengin bilunin sé enda misjafnt hvenær fólk komi inn til greiningar.
Hann telji að maðurinn hafi verið kominn með mjög víðtæka skerðingu í október á síðasta ári. Algengt sé að dómgreind einstaklinga með heilabilun sé skert og að þeir eigi erfitt með að átta sig á afleiðingum gjörða sinna. Meðallifun frá greiningu sé 5 ár og flestir þurfi á vistun að halda 2–3 árum eftir greiningu þó að það geti verið breytilegt.
Hann metur sem svo að maðurinn sé á miðstigi heilabilunar og þurfi mikla hvatningu og skýringu á daglegum athöfnum eins og næringu og hreinlæti. Að hans mati henti honum betur að vera á hjúkrunarheimili fremur en þjónustuíbúð í ljósi þess að hann hafi ekki getu til að sinna daglegum þörfum sínum.
Sérfróður meðdómandi spurði vitnið hvort hann teldi manninn geta tekið framförum ef hann léti af áfengisneyslu og sagði hann það ekki útilokað.
Oft væri þó farið fram hjá almennri verklagsreglu Minnismóttökunnar um að vísa fólki frá vegna mikillar áfengisneyslu ef einkenni væru svo mikil að ekki væri eingöngu hægt að útskýra þau út frá neyslu.
Keyrði bíl og ferðaðist einn í útlöndum í tvígang
Meðdómandinn benti þá á að maðurinn hefði þreytt klukkupróf í febrúar þar sem hann virtist hafa tekið framförum, sem kynni að skýrast af því að hann hafi setið í gæsluvarðhaldi og því ekki neytt áfengis.
Spurði hún því hvort minnistapið kynni ekki að skýrast af áfengisneyslu. Þá benti hún einnig á staðreyndir máls sem kynnu að stríða gegn frásögn um að hann sé kominn langt í heilabilun. Til að mynda hafi hann ítrekað keyrt bifreið án vandræða og í tvígang orðið viðskila við ferðafélaga sinn erlendis en engu að síður komist leiða sinna.
Í málflutningi sínum benti héraðssaksóknari á að þrátt fyrir að maðurinn bæri fyrir sig minnisleysi í yfirheyrslum um helstu atriði þá myndi hann ýmis smáatriði sem gæfu til kynna að minnið væri ekki jafn slakt og hann héldi fram. Til að mynda hefði hann munað eftir því að hann hefði keypt uppáhaldskexið sitt í fríhöfninni en mundi ekki eftir stórum atriðum um ferðina og fyrirkomulag innflutningsins.
Spurður hvort hann hefði ekki grunað að í bílnum væru fíkniefni hefði hann sagt að hann hefði kannski rætt það einu sinni við samverkamann sinn. Þá benti héraðssaksóknari einnig á að mat matsmannsins á heilabilun mannsins byggðist mikið á framburði samverkamanns hans.
Nafnalisti
Svipaðar greinar
Tölfræði
- Textinn inniheldur 709 eindir í 33 málsgreinum.
- Það tókst að trjágreina 29 málsgreinar eða 87,9%.
- Margræðnistuðull var 1,68.